Ég hef verið meðlimur að Samtökunum 78 í fjögur ár. Fyrst kom ég inn sem gagnkynhenigður stuðningsmaður, en svo fór ég að sætta mig við það að ég væri pankynhneigð og kom út með það á síðasta ári. Áður en ég gekk inn hélt ég, eins og örugglega flestir sem standa fyrir utan félagið, að allir væru þarna valhoppandi með regnbogafána í samstöðu sinni, en síðustu mánuði hef ég séð annað og heyrt enn meira.
Það eru ofboðslega miklir fordómar í Samtökunum 78! Gegn tvíkynhneigðum, pankynhneigðum, transfólki, intersexfólki, og asexualfólki. Það eru kynþáttafordómar og fordómar gegn ákveðnum týpum af hommum og lesbíum. Nú síðast hafa verið gríðalegir fordómar gegn BDSM fólki (og fólki með blæti). Frá því málið með BDSM aðildina byrjaði hefur stór hluti af eldri kynslóð af baráttufólki talað um Samtökin 78 eins og að við hin séum ekki þarna. Að þetta séu enn bara samtök homma og lesbía. Það eru mörg ár síðan að þetta breyttist og allir félagar hafa atkvæðisrétt. Enginn hefur meiri rétt til þess að ákveða hluti fyrir félagið en annar. Samtökin 78 snúast ekki lengur bara um baráttumál homma og lesbía. Það er engin ný stefnubreyting. Samtökin hafa breyttst mikið frá því þau voru stofnuð og áherslurnar með. Þar þarf engu að breyta fyrir BDSM fólkið, nema að bæta þeim við rununa, því þau smellpassa inni í það sem Samtökin 78 berst fyrir:
"1.2. Markmið félagsins er að lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, asexual, pankynhneigðir, intersex fólk og trans fólk, hér eftir nefnd hinsegin fólk, verði sýnileg og viðurkennd og njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi.
1.3. Markmiðum sínum hyggst félagið einkum ná með því:
• að skapa hinsegin fólki félagslegan og menningarlegan vettvang og styrkja þannig sjálfsvitund þess, samkennd og samstöðu um sérkenni sín.
• að vinna að baráttumálum hinsegin fólks, svo og fræðslu um reynslu þess og sérkenni, eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni svo sem á vettvangi löggjafarvalds, í opinberu fræðslukerfi og í fjölmiðlum.
• að eiga samstarf við sambærileg samtök, hópa og áhugafólk hérlendis og erlendis sem stefna að sömu markmiðum; styðja önnur félagasamtök, sem vinna að mannréttindum, og afla stuðnings þeirra.”
Nú eru margir að reyna að finna hvað sem er til að mótmæla aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum 78, til þess að þurfa ekki að viðurkenna að þeir séu með fordóma, meðal annars með því að segja að BDSM á Íslandi hafi engin baráttumál og eigi því ekki að vera með. Hver voru baráttumál pankynhneigðra og asexualfólks á sínum tíma? Engin, svo að ég viti, nema að “styrkja...sjálfsvitund þeirra, samkennd og samstöðu um sérkenni sín.” Að koma fram með “fræðslu um reynslu þess og sérkenni.” Og til að aðrir sem eru eins þurfi ekki að lifa í skömminni lengur yfir einhverju sem þau geta ekki breytt.
Og nú er ósátt fólk að lýsa yfir vantrausti á stjórnina. Ef aðildinni hefði verið hafnað á þessum fundi þá hefði stjórnin eflaust staðið sig frábærlega! Stjórnin hefur staðið sig frábærlega, og ég veit persónulega að það hefur verið erfið vinna fyrir þau að finna leið til þess að finna lausn á þessari klípu. Lög félagsins gera ekki ráð fyrir að aðalfundir séu véfengdir og því engin heimild fyrir því að halda annan aðalfund, þannig að stjórnin settu völdin í hendur félagsmanna, því það eru jú félagsmenn sem ákveða stóru málin. Allir kostir í stöðunni voru jafn ólöglegir. Það er ekki hægt að segja að ein leið sé ölöglegri en önnur. Það voru félagsmenn sem ákváðu að fara þá leið sem var farin, ekki stjórnin.
BDSM hneigð
Nú langar mig til að útskýra svolítið með sjálfa mig. Ég man first til þess að ég var sex ára þegar ég var að teikna myndir af bundnu fólki. Í huganum var ég orðin fullorðin og var að gera slíka hluti með öðru fólki. Ég hafði aldrei séð klámfengt efni, vissi bara frá vinkonu minni að fólk lagðist nakið upp í rúm og hossaðist eitthvað. Ég vissi líka að þessar myndir sem ég teiknaði voru ekki eðlilegar og eitthvað sem ég varð að fela. Sem betur fer, því ég get ekki ímyndað mér hvernig foreldrar mínir hefðu brugðist við ef þau hefðu séð þetta. Allar götur síðan hefur þetta verið fantasía hjá mér. Og ég hef skammast mín alveg ofboðslega fyrir það. Þetta var ekki eðlilegt, ég var afbrigðileg, og ég var ein um að hugsa svona. Ég faldi þetta vel svo að enginn kæmist að þessu, ekki einu sinni maðurinn sem ég var með í 17 ár! Ég hef aldrei orðið fyrir kynferðislegu áreyti og hafði ekki enn lent í einelti. Ég á heimsins bestu foreldra og þau stóðu sig frábærlega í sínu foreldrahlutverki. Ég komst seinna að því að fólk stundaði byndingar, en vissi ekki að mörg þeirra væru eins og ég, þ.e. höfðu verið svona frá því löngu fyrir kynþroskaaldur.
Það sem ég vil, nú þegar byrjað að tala um BDSM sem hneigð er að ef foreldrar uppgötva að börn sín og unglingar séu með BDSM hneigð að þau sýni börnum sínu skilning. Ég vil að foreldrar viti að þetta sé eðlilegt og að barnið fái að vita að þetta sé eðlilegt. Ég vil ekki að fólk þurfi að hata sjálft sig í 20-40 ár áður en það lærir að það sé ekkert að því. Hvort það eigi að bæta þessu við í fræðsluefni skólanna þá þarf þess ekki í mínum huga, því bara það að vera í Samtökunum 78 mun flýta fyrir baráttu BDSM hneigðra gegn fordómum um fimmtán ár. Það er augljóst að það er mikið verk fyrir höndum, eins og sjá má á samfélagsmiðlum og reiði hinsegin fólks við aðildarsamþykkt BDSM á Íslandi.
Ég hef aldrei stundað bondage/byndingar. Ég veit ekki hvort ég eigi eftir að gera það, en hvort ég geri það eða ekki þá er ég samt með þessa hneigð (alveg eins og ég veit að ég er pankynhneigð án þess að hafa nokkurntíman verið með konu). Ég hafði aldrei hitt BDSM fólkið fyrr en á þessu ári og hef ekki haft samskipti við það fyrir utan þessa tvo umræðufundi eftir aðalfundinn, og svo á félagsfundinum. Ég var enn inni í skápnum með þessa hneigð mína þar til nýlega þegar mér blöskraði svo illilega að fólk væri að ákveða fyrir mig að þetta væri ekki hneigð.
Fyrir þessar umræður hafði mér aldrei dottið í hug að þetta gæti flokkast sem hneigð, þannig að það er ekkert skrítið að aðrir séu ringlaðir. En þegar ég hugsa út í það þá er þetta 1) ekki eitthvað sem ég valdi mér, 2) eitthvað sem ég vil ekki hafa! 3) eitthvað sem kom upp löngu fyrir kynþroskaaldur, 3) eitthvað sem ég hef falið allt mitt líf og skammast mín fyrir, 4) eitthvað sem ég hef verið í djúpri afneitun með 5) eitthvað sem ég get ekki losnað við (ég hef reynt að finna leiðir).
Ég spyr: Ef þetta er ekki hluti af minni kynhneigð, hvað er þetta þá? Og ef þetta er hluti af minni kynhneigð, af hverju má ég ekki berjast fyrir því að aðrir sem eru eins og ég fái að vita að það sé fullkomlega eðlilegt að vera svona? Að þau þurfi ekki að skammast sín og hata sjálfa sig í mörg ár áður en þau skilja að þetta sé ekki eins afbrigðilegt og samfélagið vill meina?
Eftir fimmtán ár þá eigium við eftir að líta til baka og hrista hausinn yfir þessu öllu saman, að fólk hafi í alvörunni verið að standa í vegi fyrir þessari aðild, alveg eins og við (flest) hristum hausin yfir því að tvíkynhneigðir hafi þurft að berjast fyrir því að komast inn í Samtökin 78, og að transfólk hafi svo þurft að berjast fyrir því að komast inn líka. Við eigum líka eftir að hrista hausinn yfir þeim gríðarlegu fordómafullu commentum sem eru í sambandi við þetta á samfélagsmiðlum.
(Sorry, international friends. This has to be in Icelandic as it is directed toward the Icelandic public.)